Innlent

Umferðarslysum fækkar og skoðun bifreiða stóreykst

Umferðarslysum hér á landi hefur fækkað um 16,3 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins 2009. Ljóst er að töluverð fækkun á sér stað hvað varðar heildarfjölda slasaðra í samanburði við sama tímabil áranna 2008 og 2009 samkvæmt fréttabréfi Umferðarstofu.

Fyrstu 6 mánuði þessa árs hafa 657 slasast í umferðinni en í fyrra höfðu 785 slasast á sama tíma. Fækkunin nemur 16,3%.

Til að meta árangur í umferðaröryggismálum hér á landi og bera saman fjölda við erlendar slysatölur er yfirleitt lagður saman fjöldi látinna og alvarlega slasaðra. Þegar þær tölur eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hafa 83 slasast alvarlega en í fyrra voru þeir 92 og árið þar á undan höfðu 89 slasast alvarlega á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Þótt ljóst sé að samanlagður fjöldi alvarlega slasaðra og látinna fari minnkandi borið saman við næstu tvö ár á undan þá er hann töluvert meiri en á fyrstu 6 mánuðum áranna 2004 til 2006.

Slysaskráning Umferðarstofu byggir á lögregluskýrslum úr gagnagrunni Ríkislögreglustjóra og í einhverjum tilfellum rata umferðaróhöpp ekki í gagnagrunninn heldur beint á borð tryggingafélaga en það á yfirleitt við í tilfellum þar sem ekki er um slys á fólki að ræða.

Þá segir einnig í fréttabréfi Umferðarstofu að töluverð aukning hefur átt sér stað á skoðunum ökutækja ef miðað er við tölur frá því í fyrra. Helgast þetta eflaust af vanrækslugjaldinu sem var lögleitt með breytingu á umferðarlögum þann 1. október 2008. Þann 1. apríl síðastliðinn var gjaldið lagt í fyrsta skipti á skoðunarskyld ökutæki sem ekki höfðu verið færð til skoðunar.

Þann 1. apríl var vanrækslugjaldið lagt á ökutæki með 0 og 1 í endastaf. Þann 1. maí lagðist gjaldið á ökutæki með 2 í endastaf og svo koll af kolli. Að sama skapi var í fyrsta skipti skylt að færa ferðavagna til skoðunar á árinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×