Innlent

Víða slæmt ferðaveður

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.
Vegna sjóflóðahættu hefur öllum mokstri verið hætt í Ólafsfjarðarmúla og á Siglufjarðarvegi, að fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni. Mjög slæmt veður er á Norðaustur og Austurlandi. Mikil ófærð er og ekkert ferðaveður. Eftir að þjónustu líkur á Vestfjörðum, Norðaustur og Austurlandi má búast við því að vegir verði ófærir.

Vegna hættu á slitlagsskemmdum eru þungatakmarkanir um suðaustanvert landið frá Vík og austur undir Reyðarfjörð.

Á Vestfjörðum er búið að opna Djúpið, en þar er snjóþekja. Á Steingrímsfjarðarheiði er snjóþekja og skafrenningur. Snjóþekja og óveður er á Gemlufallsheiði. Á sunnanverðum Vestfjörðum er hálka, snjóþekja og víða skafrenningur. Hálka og éljagangur er á Hálfdán og Mikladal. Ófært og stórhríð er frá Klettsháls að Þorskafirði.

Norðanlands er hálka og skafrenningur í Húnavatnssýslum og í Skagafirði. Ófært er á Siglufjarðarvegi. Annars er hálka og víða skafrenningur.

Ófært er nánast á öllu Norðausturlandi. Búið er að opna Víkurskarð og Ljósavatnsskarð, og þaðan er fært Reykjadal og Fljótsheiði til Húsavíkur, en óvíst er hversu lengi sú leið verði opin eftir að þjónustu líkur.

Á Austurlandi er einnig mikil ófærð. Þungfært eða ófært er víðast hvar ásamt stórhríð eða skafrenning. Þæfingsfærð er á Fagradal, Oddskarði og með ströndinni.

Hálka og hálkublettir eru víða á Suðurlandi. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir. Ófært er á Fróðárheiði og óveður er í Staðarsveit. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og á Vatnaleið. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku og í Dölum.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 1777.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×