Innlent

Orkuskattar endurskoðaðir

Undirritun í júní. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
fréttablaðið/stefán
Undirritun í júní. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. fréttablaðið/stefán

Eftir viðræður síðustu daga á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um framtíð stöðugleikasáttmálans sendu forsætis- og fjármálaráðherra frá sér yfirlýsingu í gær um framgang málsins. Kemur þar fram þung áhersla stjórnvalda á að samstarfið haldi áfram á þeim forsendum sem samdist um í júní síðastliðinn. Gerð sáttmálans hafi verið sögulegt skref og sameiginlegur áfangi til að hefja endurreisn efnahagslífsins og auka tiltrú þjóðarinnar á framtíðina.

„Það sem þegar hefur áunnist við framfylgd sáttmálans gefur ótvírætt til kynna að það er þjóðarnauðsyn að halda því verki áfram,“ segir í yfirlýsingunni og eru tiltekin sex verkefni sem ríkisstjórnin setur á oddinn til að svo geti orðið.

Eftir viðræður síðustu daga hefur komið fram að það sem helst hefur verið tekist á um er orku- og auðlindaskattur. Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja sínum til að áform um þessa skatttekju verði endurskoðuð. Eins að ríkisstjórnin muni á næstu vikum eiga náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um að greina forsendur skatta í fjárlagafrumvarpi ársins 2010.

Í stöðugleikasáttmálanum frá því í júní voru tiltekin nokkur verkefni í atvinnumálum sem átti að liðka fyrir. Álver í Helguvík og stækkun álversins í Straumsvík voru þar sérstaklega tiltekin. Í yfirlýsingunni nú er þetta ítrekað.

Í yfirlýsingunni er hnykkt á því að engin breyting hafi orðið á því hvernig verði tekið á álitaefnum í sjávarútvegi. Endurskoðun fiskveiðistjórnunar verði í höndum nefndar sjávarútvegsráðherra sem skipuð var í sumar.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×