Innlent

Vinnubrögð stjórnarinnar forkastanleg

Mynd/Anton Brink

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er ákaflega ósáttur við yfirlýsingu um framgang stöðugleikasáttmálans. Á það bæði við um innihald hennar og hvernig var staðið að því að setja hana fram. „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð," segir Gylfi.

Í yfirlýsingu frá ASÍ í gær er það tekið skýrt fram að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sé ekki ásættanlegur grunnur að áframhaldandi samstarfi. Þar er einnig efast um vilja ríkisstjórnarinnar til að endurskoða áform sín um orku- og auðlindaskatta, en sú skatttekja hefur verið helsta bitbeinið í viðræðunum að undanförnu.

Gylfi segist hafa staðið í þeirri trú í gær að frekara samráð um yfirlýsingu um framhald stöðugleikasáttmálans hafi átt að fara fram eftir helgi. Mikill hiti hafi færst í leikinn á þriðjudagskvöldið eftir að ríkisstjórnin breytti innihaldi yfirlýsingar sem þá var að miklu leyti tilbúin „og hefði verið nauðsynlegt að kæla málið".

ASÍ hefur eindregið óskað eftir áframhaldandi viðræðum við stjórnvöld til þess að freista þess að jafna þá deilu sem komin er upp. Sú deila felst fyrst og fremst í því að mati Gylfa að ríkisstjórnin hefur með yfirlýsingu sinni ákveðið um hvað skal rætt. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×