Innlent

Actavis bað ekki um að upplýsingar yrðu fjarlægðar úr skýrslu AGS

Actavis óskaði ekki eftir því að upplýsingar um erlendar skuldir fyrirtækisins yrðu fjarlægðar úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Skýrsla sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda verður birt klukkan tvö í dag. Til stóð að birta skýrsluna um miðjan dag í gær en því var frestað á síðustu stundu. Seðlabanki Íslands óskaði eftir frestuninni. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Seðlabankinn hafi farið fram á að teknar yrðu út viðkvæmar upplýsingar um lánamál lyfjafyrirtækisins Actavis. Erlendar skuldir Actavis eru gríðarlega háar, eða um 1000 milljarðar króna og eru því stór hluti af heildar erlendum skuldum Íslands.

Heimildir fréttastofu herma að Actavis hafi verið í stöðugu sambandi við Seðlabankann síðustu mánuði og veitt bankanum upplýsingar um skuldastöðuna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu frá Actavis óskaði félagið ekki eftir því að upplýsingar yrðu fjarlægðar úr skýrslunni.

Fréttastofa hafði samband við Seðlabankann í morgun, sem vildi ekki tjá sig um hvort upplýsingar um skuldir Actavis hafi verið fjarlægðar úr skýrslunni.

Skýrslan hefur verið í vinnslu í að verða heilt ár, eða síðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og stjórnvöld gerðu samkomulag um aðkomu sjóðsins að endurreisn efnahagslífsins. Í skýrslunni verða skuldaþolsútreikningar og greining á stöðu efnahagsmála hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×