Erlent

Offramboð á enskum prestsetrum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eitt af mörgum prestsetrum sem prýða auglýsingar breskra fasteignasala.
Eitt af mörgum prestsetrum sem prýða auglýsingar breskra fasteignasala. MYND/Telegraph

Á annað hundrað fyrr- og núverandi prestsetur prýða nú auglýsingasíður breskra fasteignasala og er það mál manna að sjaldan hafi verið hægt að næla sér í virðulega fasteign á borð við slík setur fyrir hóflegar upphæðir.

Fasteignasalinn Andrew Marshall hjá Hamptons-fasteignasölunni segir þetta vera hreina tilviljun en athyglisvert engu að síður. Eigendurnir kjósi að selja prestsetur, sem oft eru stórar byggingar með myndarlegum garði, að vori því þá líti garðurinn best út og laði frekar að sér hugsanlega kaupendur.

Marshall segir ekki algengt að eignir á borð við gömul prestsetur séu auglýstar. Þannig sé það alls ekki í meðalári því þá sé kaupandinn yfirleitt fundinn eftir allt öðrum leiðum en með auglýsingum, fólk sýni hreinlega áhuga á að eignast slíka fasteign og gangi svo beint til samninga við eigandann.

Hann segir mörg prestsetranna, sem nú séu til sölu, byggð á þeim tíma þegar kirkjan gerði vel við presta sína og þess sjáist merki á eignunum sem oft hafi stórar íburðarmiklar skrifstofur, borðsal og fallegan garð umhverfis allt saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×