Innlent

Brotist inn á tveggja og hálfs tíma fresti

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Afbrotum fjölgar milli ára.
Afbrotum fjölgar milli ára.

Talsverð fjölgun hefur orðið í hegningarlaga-, umferðarlaga- og fíkniefnabrotum í júnímánuði samanborið við sama tíma í fyrra samkvæmt afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Mest er fjölgunin í hegningarlagabrotum, en þau hafa ekki verið fleiri í júnímánuði fimm ár.

Innbrotum fjölgar verulega milli ára eða úr 180 í 290. Það merkir að brotist var inn í hús einhverstaðar á landinu á tveggja og hálfs tíma fresti að meðaltali.

Allt stefnir í að kærð efnahagsbrot verði fleiri í ár en undanfarin tvö ár samanlagt. Fyrstu sex mánuði ársins voru kærð brot til ríkislögreglustjóra 186. Ef fram fer sem horfir verða þau því allt að 370 undir árslok 2009.

Árið 2008 voru samanlagt kærð 223 efnahagsbrot til ríkislögreglustjóra og 121 árið 2007.

Þjófnaðarbrotum í júní fjölgar um helming milli ára, en fjölgunar hefur gætt í brotaflokknum undanfarna mánuði.

Þá hefur fjöldi nytjastuldarmála tvöfaldast milli ára og komu 52 slík upp í júní.

Brotum hefur fækkað lítið eitt í nokkrum brotaflokkum, svo sem eignaspjöllum, ölvunarakstri, áfengislagabrotum og líkamsmeiðingum.

Bráðabirgðatölfræði ríkislögreglustjóra um afbrot í júnímánuði má í  heild sinni sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×