Innlent

Dómstólar sagðir að kafna í málafjölda

Héraðsdómur Reykjavíkur er að sligast undan miklum málafjölda. „Það er hrúgað stöðugt á dómstólana eins og þeir séu botnlaus hít sem taki endalaust við," segir Helgi Jónsson, dómstjóri í Reykjavík.

Margar vikur tekur að afgreiða umsóknir um greiðsluaðlögun og Héraðsdómur virðist vera að kafna í slíkum málum. „Það er alveg hárrétt," samsinnir Helgi. „Ofan á allt annað var þessu skellt á okkur fyrir­varalaust í maí í vor og ekki gert ráð fyrir neinum mannafla í verkið. Þetta teppir alveg einn aðstoðarmann og einn dómara að hluta."

Að sögn Helga hafa samtals 254 beiðnir um greiðsluaðlögun komið til Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í maí. Óafgreidd mál séu í dag 85 talsins. Miklar annir séu einnig í þessum málum í Héraðsdómi Reykjaness.

Greiðsluaðlögunarmálin eru alls ekki þau einu sem eru að sprengja dómstólana utan af sér. Helgi bendir á að í Reykjavík séu til dæmis þegar komin 983 einkamál með munnlegum málflutningi. Þau verði líklega um 1.100 áður en árið sé á enda. Í meðalári sé fjöldi slíkra mála um 750. Útlit sé fyrir enn fleiri mál á næsta ári.

„Það er búið að afnema alla aðstoð við dómara í munnlega fluttum einkamálum og sakamálum. Okkur var lofað aðstoðarmönnum strax í sumar en það hefur ekki verið staðið við það," segir Helgi.

Ragna Árnadóttir dómsmála­ráðherra segist hafa bent á þá lausn að fjölga dómurum og aðstoðarmönnum.

„Af því að ég hef ekki af neinu að taka hérna í ráðuneytinu bendi ég á hækkun dómsmálagjalda á móti. Að þessu er unnið og ég tel að að ég geti aflað þessum tillögum fylgis miðað við þær undirtektir sem þær fengu á Alþingi um daginn," segir ráðherra.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×