Erlent

Obama er víst Bandaríkjamaður

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Hvíta húsið gaf í gær út yfirlýsingu um að Barack Obama væri bandarískur ríkisborgari. Það var gert vegna þrálátra yfirlýsinga þrýstihóps, sem ekki er þeirrar skoðunar.

Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, virtist nokkuð ergilegur á blaðamannafundi í gær þegar hann var spurður enn einu sinni hvað væri hæft í málflutningi hóps samsæriskenningasinna sem kalla sig birthers í þá átt að Barack Obama Bandaríkjaforseti væri alls ekki hæfur til að gegna því embætti þar sem hann væri ekki bandarískur ríkisborgari.

Hópurinn staðhæfir að Obama sé fæddur í Kenýa en ekki á Hawaii og því fái það alls ekki staðist að hann sé forseti. Gibbs sagðist svo sem ekki hafa nein vísindaleg gögn undir höndum sem færðu sönnur á fæðingarstað forsetans en hins vegar hefði hann séð fæðingarvottorð Obama sem gefið væri út af heilbrigðisráðuneyti Hawaii og þar stæði einfaldlega að maðurinn hefði fæðst í Honolulu klukkan 7:24 að kvöldi 4. ágúst 1961 og þyrfti venjulegt fólk ekki frekari sannanir fyrir fæðingarstað einhvers.

Gibbs sagði réttast að birta vottorðið á Netinu til að kveða niður efasemdarraddirnar. Birthers-hópurinn var hávær í kosningabaráttunni í haust en núna í gúrkutíð fjölmiðla yfir hásumarið, sem Bandaríkjamenn kalla „silly season", hefur þeim aftur vaxið ásmegin og notfæra sér fréttaskortinn til að koma sér á framfæri. Eðlilegt fólk léti sér ef til vill nægja að fara í sumarfrí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×