Innlent

Vill ljúka þinghaldi í lok þessarar viku

forseti alþingis Ásta Ragnheiður útilokar ekki að störfum þings verði lokið fyrir helgi. Icesave-málið verður í forgangi, og rætt á miðvikudag.fréttablaðið/anton
forseti alþingis Ásta Ragnheiður útilokar ekki að störfum þings verði lokið fyrir helgi. Icesave-málið verður í forgangi, og rætt á miðvikudag.fréttablaðið/anton

Forseti Alþingis segist enn binda vonir við að yfirstandandi sumarþing ljúki störfum fyrir næstu helgi.

Forsetinn, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fundaði með formönnum þingflokkanna í gær. Fyrir fundinn hafði hún vonast til að Icesave-málið yrði lagt fram í dag, en „niðurstaðan varð sú að ég kom til móts við stjórnarandstöðuna. Hún fær lengri frest til að skila nefndaráliti um Icesave og umræðan byrjar ekki fyrr en á miðvikudagsmorgun."

„Mjög mikilvægt er fyrir þingið að okkur takist að ljúka þessu þinghaldi í lok vikunnar," segir Ásta. „Nýtt þing er að hefjast 1. október og það á eftir að vinna alla vinnuna fyrir það. Í raun hefði átt að vera septemberþing, en ég hef ákveðið að fella það niður. Hér er starfsfólk sem þarf að huga að og á sín réttindi. Það hefur ekki komist í sitt lögbundna sumarfrí."

Ómögulegt sé að segja hvort störfum ljúki í vikunni, úr því sem komið er. „En menn úr stjórnar­andstöðu hafa lýst yfir vilja til þess.

Þingið mun í það minnsta klára Icesave-málið, bandorm um breytingar á lögum um stjórnarráðið og líklega gera ráðstafanir í ríkisfjármálum. Önnur smámál gætu komist í gegn að auki úr nefndum.

Verði Icesave-málið og bandormur um stjórnarráð samþykkt standa fjórtán stjórnarfrumvörp eftir sem bíða afgreiðslu Alþingis, samkvæmt heimasíðu þingsins. Ásta segir að þau verði ekki afgreidd.

Sumarþingið hefur staðið síðan 15. maí. Guðbjartur Hannesson, þáverandi forseti Alþingis, sagði í apríl að það ætti að standa í „nokkrar vikur".

klemens@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×