Innlent

Fundar með fjármálaráðherrum í Istanbúl

Fjármálaráðherra mun í dag og næstu daga eiga fundi með fjármálaráðherrum fjölmargra ríkja vegna efnahagserfiðleika Íslands á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hófst í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir Íslendinga ekki mega fórna framtíðarhagsmunum vegna pólitískra afarkosta Breta, Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hélt til Istanbúl í gær ásamt hópi embættismanna úr fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum. Þar mun hann eiga fundi með starfsbræðrum sínum frá Hollandi og Bretlandi um Icesave og freista þess að ná niðurstöðu sem ríkisstjórnin treystir sér til að leggja fyrir Alþingi. En í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að málið þyrfti óhjákvæmilega að koma aftur fyrir Alþingi, þótt málið væri ekki enn komið í þann búning að ríkisstjórnin treysti sér til að leggja málið fyrir þingið.

Reikna má með að Steingrímur ýti á eftir því við stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundinum í Istanbúl að endurskoðun sjóðsins á endurreisnaráætlun Íslands verði hraðað, en hún hefur dregist um átta mánuði vegna Icesave. Framkvæmdastjóri sjóðsins sagði á blaðamannafundi í gær að þjóðir heims ættu að vinna saman að lausn efnahagskreppunnar sem ekki væri liðin hjá. Bjarni Beneditksson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær að Íslendingar hefðu ekkert að gera með þetta samkomulag, ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti ekki staðið undir hlutverki sínu gagnvart Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×