Innlent

Lúxushótel á hálendinu gengur framar vonum

Rekstur eina lúxushótelsins á hálendi Íslands hefur gengið framar vonum. Hótelhaldarinn, Friðrik Pálsson, segir gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu á hálendinu.

Fyrir fimm árum tók Friðrik Pálsson við rekstri hálendismiðstöðvarinnar við Hrauneyjar þar sem boðið er upp á máltíðir og einfalda gistingu í gömlum vinnubúðum. Færri vita að skammt frá, við Hrauneyjafossvirkjun, er hann búinn að byggja upp lúxusgististað sem gæti flokkast sem fjögurra stjörnu hótel. Húsakynni, sem áður voru starfsmannaíbúðir, eru nú svítur þar sem menn borga allt að 35 þúsund krónur fyrir nóttina.

Friðrik segir að margir hafi ekki haft mikla trú á því að hægt væri að reka lúxushótel á hálendinu en það hafi sýnt sig að því er gríðarlega vel tekið. Það er hugsað fyrir gesti sem eru tilbúnir að greiða meira fyrir að láta sér líða vel.

Friðrik segir að menn séu rétt að sjá toppinn á ísjakanum í ferðaþjónustu á hálendinu. Langflestir ferðamenn heimsæki Ísland vegna þess að það er ævintýraeyja. Ævintýrin liggi mjög mikið uppi á hálendinu. Margir útlendinganna, sem hingað komi, séu vel undirbúnir og viti upp á hár hvert þeir ætli að fara og fái ótrúlega mikið út úr örfáum dögum.

Aðalatriðið sé að lengja ferðamannatímann, segir Friðrik. Vetrartíminn sé óplægður akur.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×