Erlent

Allt í lagi takk herra -síðustu orðin frá tyrknesku vélinni

Óli Tynes skrifar
Flak þotunnar á Schiphol flugvelli.
Flak þotunnar á Schiphol flugvelli.

Flugstjóri tyrknesku farþegaþotunnar sem fórst í aðflugi að Schiphol flugvelli í Amsterdam á miðvikudag var sallarólegur í síðustu samskiptum sínum við flugturninn.

Fyrstu niðurstöður rannsóknar á slysinu benda til þess að báðir hreyflar Boeing 737 þotunnar hafi misst afl rétt áður en hún skall til jarðar þrjá kílómetra frá enda flugbrautarinnar. Síðustu samskipti vélarinnar og flugturnsins hafa nú verið birt.

Flugmaður: -Tyrknesk 1951 (kallmerki vélarinnar) er að lækka sig úr sjöþúsund feta hæð.

Flugturn: -Tyrknesk 1951 halló, lækkaðu flugið niður í fjögur þúsund fet, hraðinn er góður fyrir blindaðflug að braut 1-8 hægri.

Flugumferðarstjórinn gaf svo flugmanninum upp bylgjulengdina sem hann átti að nota til þess að hafa samband við turninn eftir að vélin var lent. Síðustu orðin frá flugvélinni voru; -Allt í lagi takk herra.

Andartaki síðar skall vélin til jarðar. Eitthundrað þrjátíu og fjórir voru um borð. Níu létu lífið. Fimm þeirra voru í áhöfn vélarinnar, þar á meðal báðir flugmennirnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×