Lífið

Órafmagnaðir í Sýrlandi

skítamórall Hljómsveitin Skítamórall verður önnum kafin við spilamennsku í allt sumar.
skítamórall Hljómsveitin Skítamórall verður önnum kafin við spilamennsku í allt sumar.

Skítamórall ætlar að halda órafmagnaða tónleika í haust sem verða teknir upp og gefnir út fyrir jólin. Tilefnið er tuttugu ára afmæli sveitarinnar á þessu ári.

Á tónleikunum, sem verða teknir upp í tónleikasal Stúdíó Sýrlands að Vatnagörðum, ætla þeir að spjalla við áhorfendur á milli laga og leggja þeir mikið upp úr afslappaðri umgjörð.

„Við erum að áætla að þetta verði tvö hundruð manna konsert. Við sitjum í hring og fólkið í kringum okkur. Þetta verður flott stemning og við ætlum að reyna að búa til óþvingað andrúmsloft,“ segir gítarleikarinn Addi Fannar. „Við höfum mikið spilað órafmagnað og þetta hentar okkur gríðarlega vel.“

Skítamórall hefur einnig bókað sig á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina en sveitin spilaði síðast þar fyrir fjórum árum. Nýtt lag, Sönn, kom jafnframt út á dögunum, auk þess sem gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson úr Sóldögg er genginn til liðs við sveitina. Á sama tíma hefur Gunnar Ólason lagt gítarinn á hilluna og einbeitir sér nú alfarið að söngnum.

Næsta ball Skítamórals verður á Breiðinni á Akranesi, Eurovision-kvöldið 16. maí, og má búast við hörkustemningu eins og hljómsveitarmeðlima er von og vísa. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.