Lífið

Sinfónískir áhugamenn

tónlist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna er að hefja æfingar og hana vantar strengjaleikara.mynd/sinfóníuhljómsveit áhugamanna
tónlist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna er að hefja æfingar og hana vantar strengjaleikara.mynd/sinfóníuhljómsveit áhugamanna

Þær eru ekki margar sinfóníuhljómsveitirnar sem starfa í landinu. Tvær þeirra eru skipaðar atvinnumönnum, tvær áhugafólki, önnur ungum hljóðfæraleikurum og hin fullnuma tónlistarfólki sem starfar sem áhugamenn. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna var stofnuð 1990 og hefur starfað óslitið síðan. Hljómsveitina skipa að jafnaði fjörutíu til sextíu manns. Hún starfar frá september og fram í maí ár hvert.

Nú er nýtt starfsár að hefjast í þessum hóp. Á þriðjudagskvöldið verður fyrsta æfing nýs starfsárs. Hljómsveitin mun nú sem fyrr takast á við mörg helstu verk tónbókmenntanna og halda minnst fimm tónleika á starfsárinu.

Fyrstu tónleikar verða 18. október og eru þeir framlag sveitar­innar til Heimsgöngu í þágu friðar og tilveru án ofbeldis. Þá verða frumflutt tvö verk eftir Oliver Kentish og kynntir tveir ungir og upprennandi einleikarar, Baldvin Oddsson og Magnús Pálsson. Einnig verður flutt Sinfónía nr. 9 eftir Dvorák, „Frá nýja heiminum“.

Á aðventunni gengur hljómsveitin til samstarfs við kór Neskirkju og flytur Messías eftir Händel. Eftir áramót verða þrennir tónleikar og leikin verk eftir Haydn, Samuel Barber, Bach, Mozart, Mendelssohn, Dvorák og Brahms, meðal annarra. Einnig verður leikinn konsert fyrir pákur eftir átjándu aldar tónskáldið Georg Druschetzky, og verður það í fyrsta sinn sem þetta verk er flutt hér á landi. Einleikari verður Frank Aarnink.

Gunnar Kvaran sellóleikari mun leika einleik með hljómsveitinni í maí og Michael Clarke verður einsöngvari á tónleikum í mars.

Aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar er Oliver Kentish.

Æfingar eru eitt kvöld í hverri viku, á þriðjudagskvöldum frá hálfátta til tíu, og fara fram í Seltjarnarneskirkju. Hljómsveitin getur bætt við sig hljóðfæraleikurum, einkum í strengjadeildum. Þeir sem áhuga hafa geta haft samband við stjórnandann, Oliver Kentish, eða einfaldlega mætt á æfingu og athugað málið á þriðjudagskvöld.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.