Lífið

Björgólfur og Sturla vörubílstjóri saman í mynd

Helgi Felixson frumsýnir hinn 6. október en meðal viðmælenda hans í heimildarmyndinni Guð blessi Ísland eru Bjarni Ármannsson og Sturla Jónsson.
Helgi Felixson frumsýnir hinn 6. október en meðal viðmælenda hans í heimildarmyndinni Guð blessi Ísland eru Bjarni Ármannsson og Sturla Jónsson.

Fjöldi heimildarmynda er í vinnslu um íslenska efnahagshrunið. Fyrsta myndin er að verða klár en hún verður frumsýnd á sögulegum degi.

„Þetta er alveg pottþétt dagsetning, hún gæti bara ekki verið betri,“ segir Helgi Felixson en hann frumsýnir, fyrstur allra, heimildarmynd sína um bankahrunið á Íslandi hinn 6. október, nákvæmlega ári eftir að Geir H. Haarde flutti víðfrægt ávarp til íslensku þjóðarinnar. Myndinni hefur verið gefið nafnið Guð blessi Ísland með tilvísan í ræðu Geirs. Svo skemmtilega vill til að RÚV stefnir á að frumsýna fyrstu heimildarmyndina af fimm þennan sama dag en Helgi vonast til að plús-stöðin bjargi honum fyrir horn.

Helgi kafar í myndinni ekki ofan í hagfræðingakenningar er varða íslenska efnahagshrunið heldur beinir kastljósinu að mannlega hlutanum, hvernig Íslendingar upplifðu það þegar landið var við það að sogast ofan í hyldýpi þjóðargjaldþrots. Meðal þeirra sem Helgi fylgist með er Duni, lögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu sem á að halda uppi lögum og reglu en er sjálfur bæði reiður og ringlaður. Einnig koma við sögu nornin Eva Hauksdóttir og sonur hennar Haukur sem voru áberandi í búsáhaldabyltingunni auk Einars Más Guðmundssonar. Sturla Jónsson vörubílstjóri kemur töluvert fyrir í myndinni. „Og svo ræða bæði Björgólfur og Bjarni Ármannsson við mig. Þetta eru þó ekki einhverjar varnarræður heldur eru þeir bara að segja frá því hvernig þeir upplifðu þennan tíma.“

Til stóð að Jón Ásgeir Jóhannes-son yrði meðal viðmælanda en hann gekk úr skaftinu á síðustu stundu. „Hann bara hætti við en á ennþá von um að komast í síðasta klippið. Ég er að vonast til að ná honum,“ segir Helgi og bætir því við að hann sé með dúndurefni í höndunum. „Ég gæti haldið áfram með þessar sögur fram á síðasta dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.