Innlent

Hæstiréttur ómerkir slysadóm

Hæstiréttur Íslands. Mynd úr safni.
Hæstiréttur Íslands. Mynd úr safni.

Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og sendir aftur í hérað. Um er að ræða sýknudóm yfir konu sem var að aka vestur Breiðholtsbrautarinnar í febrúar 2007.

Fram kemur í dómnum að hún hafi upprunalega gefið þann vitnisburð í lögregluskýrslum að rúðan hefði verið hrímuð. Hún hafi sprautað rúðuvökva og við það ekið yfir á vitlausan vegarhelming þar sem hún ók framan á aðra bifreið. Sá ökumaður slasaðist talsvert. Það gerði konan líka.

Síðar í dómi neitaði konan að hafa gefið þá lýsingu sem upprunalega var haft eftir henni í lögreglusskýrslum. Var hún því sýknuð.

Í Hæstarétti var hins vegar talið að ekki yrði litið framhjá því að ljósmyndir væru meðal málsgagna, sem sýndu glöggt vettvang slyssins og hvernig yfirborð götunnar hefði verið í umrætt sinn og þar með hvort þar hefði verið „skítur og slabb" eins og konan hefði borið fyrir dómi að slest hefði á framrúðu bifreiðar hennar og byrgt henni sýn.

Ekkert væri vikið að þessu í forsendum dómsins í héraði né heldur veðuraðstæðum sem þá ríktu eða rannsókn lögreglumanns á framrúðum bifreiðanna á vettvangi slyssins.

Var talið að slíkir annmarkar væru á hinum áfrýjaða dómi að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu til héraðsdóms til meðferðar að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×