Erlent

Opna spilavíti í kreppunni

Ráðamenn í Kansasríki í Bandaríkjunum hafa ákveðið að fara ótroðnar slóðir í tekjuöflun í kreppunni. Ríkið ætlar að henda sér í spilavítisrekstur og setja tekjur af því í rekstur skóla og opinberrar þjónustu.

Kansasbúar hafa löngum talist til íhaldsamari Bandaríkjamanna. Þar var áfengisbannið alræmda í gildi löngu eftir að það hafi verið afnumið víðasthvar annars staðar fyrir vestan. Kennsluefni í raunvísindum í ríkisskólum í Kansas hefur verið breytt fjórum sinnum á síðustu árum vegna deilna um hvort kenna eigi þróunarkenninguna. Í ríkinu eru einnig strangar reglur um fóstureyðingar.

Það kemur því mörgum á óvart að Kansas ætli ekki að láta sér nægja að blessa fjárhættuspil og skattleggja ágóðan af því, heldur ætli fyrst ríkja fyrir vestan að fá einkafyrirtæki til að byggja og reka spilavíti þar og taka síðan góðan hluta af tekjum þeirra í opinberan rekstur.

Ástæðan er sú að á síðustu mánuðum hefur alheimskreppan bitið nokkuð hart í ríkinu. Fjárframlög til grunn- og gagnfræðaskóla í ríkin hafa verið skorin niður töluvert og einnig dregið úr annarri opinberri þjónustu.

Þetta er talið skjóta skökku við því stjórnarskrá Kansasríkis bannaði lengivel hvers kyns fjárhættuspil. Það hefur þó breyttst á síðustu rúmum tveimur áratugum. Fjögur spilavíti hafa verið byggð á verndarsvæðum Indjána í Kansas auk þess sem lottó hefur verið leyft, veðhlaupabrautir opnaðar og spilakassar verið settir upp.

Stjórnvöld í ríkinu hafa hingað til getað treysta á tekjur vegna leyfa fyrir þessa starfsemi og skatta á hana hafi dugað til að ná endum saman. Svo er ekki lengur og því þessi leið valin.

Fyrsta spilavítið er nú í byggingu í hinni þekktu kúrekaborg Dodge og fara um tuttugu og sjö prósent af ágóðanum þar til ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×