Innlent

Kostnaður við Arnkötludalsveg langt fram úr áætlun

Kostnaður við lagningu nýja vegarins um Arnkötludal stefnir í að fara 40 til 50 prósent fram úr áætlun. Til stóð að hleypa umferð á veginn fyrir síðustu áramót en nú vonast verktakinn til að það gerist öðru hvoru megin við verslunarmannahelgi.

Arnkötludalsvegur er hugsaður sem framtíðarleið fyrir umferðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og því bíða margir þess með eftirvæntingu að fá að aka þarna í gegn. Gerð þessa 25 kílómetra vegar hófst fyrir tveimur árum, vorið 2007, og nú vinna þar um 35 manns á vegum verktakans, Ingileifs Jónssonar. Vegurinn liggur að stórum hluta um tvo dali en fer þó á kafla upp í 370 metra hæð. Þaðan fæst mikið útsýni, til suðurs yfir Gilsfjörð og til norðurs yfir Steingrímsfjörð.

Á ýmsu hefur þó gengið. Deilur urðu þegar Vegagerðin breytti legu vegarins efst í Gautsdal og flutti hann fram á fossbrún. Þá hefur þurft að byggja veginn meira upp en áætlað var. Loks tafðist verkið þegar í ljós kom að fyllingarefni, sem Vegagerðin valdi, reyndist ónothæft og þurfti að moka því burtu af löngum vegarkafla sem búið var að sturta því í. Reikningur verktakans verður því drjúgt hærri en þær 660 milljónir króna sem tilboðið var upp á, kostnaður stefnir nú vel yfir milljarð og gæti endað í 1.200 milljónum, segir Ingileifur Jónsson verktaki, en það væri 50 prósentum meira en verðbætt tilboðið.

Spurður hvenær eigi að opna veginn svarar Ingileifur að það verði seinniparts sumars, öðru hvoru megin við verslunarmannahelgi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×