Miðborg Reykjavíkur iðaði öll af lífi og menningu í dag þar sem rúmlega fjögur hundruð list- og menningarviðburðir fara fram. Forsvarsmenn segja sköpunargleðina blómstra í kreppunni. Búist er við um hundrað þúsund manns í miðbænum í kvöld.
Listviðburðir í miðbænum hófust klukkan tíu í morgun en fólk fór að týnast í bæinn síðdegis. Rigningarskúr var fram eftir degi en sólin gægðist á milli skýjanna af og til. En Menningar- og listviðburðir voru á hverju horni.
Menningarfylgd Birnu Þórðardóttur var á sínum stað og mikið var um að vera á Óðinstorgi þar sem söfnunarátakið Á rás fyrir Grensás fór fram og var Edda Heiðrún Bacmann þar fremst í flokki.
Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi bauð í árlegt vöfflukaffli á heimili sínu og var fullt út úr dyrum.
Þá heilluðu seiðandi tónar tónlistarkonunnar Únu alla upp úr skónum og á Laugaveginum var mikið líf þar sem gestir menningarnætur fengu knús í boði hlutverkaseturs.
Rokktónar Retro Sefson hljómuðu úr skífunni og ljúfir tónar Þorvaldar Halldórssonar úr kirkjuhúsinu. Svo var salsakennsla og dans stiginn á Bríetartorgi.
Skúli Gautason verkefnastjóri menningarnætur segir kreppuna ekki hafa bitnað á hátíðinni.
Stórtónleikar hefjast svo klukkan átta í hljómskálagarðinum með Þursaflokknum, Páli Óskari, Pöpum og fleirum.
Þá hefst hin víðfræga flugeldasýning klukkan ellefu og stendur til hálf tólf. Skotið verður upp við nýja tónlistar-og ráðstefnuhúsið. Búist er við að hundrað þúsund manns verði í miðbænum í kvöld. Lögregla vill koma þeim tilmælum til gesta menningarnætur að leggja ökutækjum í útjaðri miðborgarinnar eða nýta sér almenningssamgöngur.