Lífið

Þorvaldur Davíð semur smell

Þorvaldur Davíð sendi frá sér sumarsmell á dögunum.
Fréttablaðið/Arnþór
Þorvaldur Davíð sendi frá sér sumarsmell á dögunum. Fréttablaðið/Arnþór

Leikaraneminn Þorvaldur Davíð Kristjánsson er ekki við eina fjölina felldur, en hann hefur nýlega sent frá sér lagið Sumarsaga. „Ég byrjaði að læra á gítar til að kúpla mig út úr leiklistinni eftir erfiðan skóladag. Það var það sem ég gerði í vetur, æfði mig á kassagítar, til að verða löggildur í útilegurnar í sumar.“

Lagið fjallar um sumarkvöld í Reykjavík. Er það samið í heimþrá? „Eiginlega. Þetta var eftir að ég var búinn að melta efnahagshrunið og var að reyna að finna jákvæðu hliðarnar á Íslandi. Ég var búinn að sýna seinustu sýninguna mína í skólanum og var hugsað heim. Hvað gerir maður þegar maður kemur til Íslands? Jú maður fer niður í bæ, hittir fólk, fær sér kannski nokkra stóra og labbar um miðbæinn. Þaðan kom þessi litla sumarsaga. Svo fylgdu hljómarnir bara með.“

Þorvaldur fékk aðstoð vina við upptökur. Sólmundur Hólm og Hannes Þórður Þorvaldsson spiluðu með og Þorvaldur Bjarni sá um hljóðblöndun. Lagið kemur út á Pottþétt plötunni Sumar á Íslandi seinna í sumar. Hyggst hann spila opinberlega? „Ef einhver vill að ég komi og spili þá geri ég það. Maður tekur þetta í útilegunum. Svo er bara vonandi að fólk pikki upp gripinn og maður heyri þetta úti um allt um verslunarmannahelgina.“

Hann segir lítið mál að læra á gítar. „Sérstaklega ef maður tengir þetta sagnahefðinni. Það var leiðin inn í þetta fyrir mig. Þú ert bara að segja sögu og svo lætur þú hljómana fylgja einhvern veginn með.“

Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri lög eftir Þorvald líti dagsins ljós. „Ef fólk fílar lagið og vill meira þá bý ég bara til fleiri lög. Ég á nokkur í skúffunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.