Innlent

Óásættanleg mismunun felst í frumvarpi um greiðsluaðlögun

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.

Bandalag háskólamanna hefur sent nefndasviði Alþingis umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti, eða greiðsluaðlögun. „Um leið og stjórn BHM fagnar frumvarpinu, sem hún telur jákvætt innlegg í fjárhagsvanda heimilanna, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við nokkur atriði," segir í tilkynningu frá BHM.

„Í fyrsta lagi felst óásættanleg mismunun í því að eingöngu veðkröfur í eigu sjóða eða fyrirtækja ríkisins skuli falla undir greiðsluaðlögun og brýtur væntanlega í bága við 65. grein stjórnarskrárinnar," segir í tilkynningunni. „Fjöldi fólks er með sín veðlán hjá sparisjóðum eða fyrirtækjum í þeirra eigu og jafnframt eru lífeyrissjóðir landsins stórir lánveitendur til húsnæðiskaupa. Ekki verður við það unað að einstaklingum sé mismunað eftir því hvar þeir hafa valið að fjármagna húsnæðiskaup sín."

Þá er gerð alvarleg athugasemd við það að ákvæðið skuli vera tímabundið. „Ljóst er að núverandi efnahagslægð á eftir að standa töluvert lengi og greiðsluerfiðleikar koma ekki síst í ljós í lok krepputímabils og í upphafi þess að efnahagslífið fer að taka við sér. Að mati BHM á í þessu tilfelli að setja lög til framtíðar en ekki tjalda til skamms tíma. "

BHM vill einnig benda á að aðstæður á Íslandi eru enn að mörgu leyti ólíkar því sem gerist á Norðurlöndunum hvað varðar ábyrgð þriðja manns. „Ábyrgðamannakerfið er enn mjög útbreitt og má þar sem dæmi taka að ábyrgðarmenn á námslánum munu vera hátt í 50.000. Samkvæmt þessum lögum er það afdráttarlaust að þó að skuldari fái greiðsluaðlögun getur kröfuhafi gengið að því sem eftir er gefið hjá ábyrgðarmanni/ábyrgðarmönnum. Gildi þessara laga er því takmarkað að þessu leyti," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×