Innlent

Vilja skýr ákvæði um brottrekstur

Forsætisráðuneytið birti í gær umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frumvarp um breytt skipulag Seðlabanka Íslands. Umsögnin var send fjölmiðlum, með þeim orðum úr ráðuneytinu að hún yrði birt í íslenskri þýðingu svo fljótt sem kostur væri.

Bráðabirgðaumsögn barst ráðuneytinu um síðustu helgi, en forsætisráðherra fór fram á að trúnaði yrði aflétt af henni.

Umsögnin er tvíþætt. Annars vegar eru tíundaðar nokkrar „almennar reglur um seðlabankalöggjöf", en þær eru greinilega settar fram sem athugasemdir við fyrirliggjandi frumvarp.

Hins vegar er rakin gagnrýni á gildandi lög um Seðlabanka Íslands. Sú gagnrýni virðist vera sett fram sem ábending um hvaða þáttum hið nýja frumvarp ætti fyrst og fremst að beinast að, til að væntanleg ný seðlabankalög verði framför, með tilliti til þess sem sérfræðingar AGS telja að reynsla annarra landa hafi sýnt að sé affarasælast. Þá er í viðhengi birt samanburðartafla yfir seðlabankalöggjöf ýmissa landa.

Meðal atriða sem sett eru fram sem gagnrýni á frumvarp ríkisstjórnarinnar er að ekki sé vani að tilgreina nákvæmlega hvaða prófgráðu seðlabankastjóri skuli hafa. Þá er lögð áhersla á nauðsyn þess að skýr ákvæði séu um það hvernig farið skuli að við að svipta seðlabankastjóra embætti. - aa






Fleiri fréttir

Sjá meira


×