Erlent

Viðurkennir gáleysisleg orð

Taro Aso Forsætisráðherrann var þungur á brún er hann rauf þing.
fréttablaðið/AP
Taro Aso Forsætisráðherrann var þungur á brún er hann rauf þing. fréttablaðið/AP
Japan, AP Taro Aso, forsætisráðherra Japans, rauf þinghald neðri deildar japanska þingsins í gær og boðaði til kosninga í næsta mánuði.

Skoðanakannanir benda til þess að uppstokkunar sé að vænta í japönskum stjórnmálum, þar sem Frjálsyndi lýðræðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í meira en hálfa öld.

Aso viðurkenndi að hann og flokkur hans væru í erfiðri stöðu, bæði vegna erfiðs efnahagsástands en einnig vegna þess hve oft hann sjálfur hefur misst út úr sér fljótfærnisleg ummæli: „Vegna gáleysislegra orða minna hefur almenningur misst trúna á mér og stjórninni. Mér þykir þetta afar leitt.“

Eftir að hafa rofið þing gagnrýndi hann þó harðlega Lýðræðis­flokk Japans, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Aso sagði flokkinn ekki hafa neina sjálfstæða stefnu í grundvallarmálum heldur nærast eingöngu á óvinsældum stjórnarinnar.

„Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem getur stjórnað Japan af ábyrgð,“ sagði hann á blaðamannafundi í gær.

Aso er þriðji maðurinn sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra Japans á jafnmörgum árum. Óvinsældir hans hafa orðið til þess að sumir þungavigtarmenn í flokknum hafa reynt að steypa honum af stóli.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×