Lífið

Pilsner í boði Rauða Krossins

Gunnhildur Sveinsdóttir Gunnhildur býst við góðri mætingu í spurningakeppnina í Rauða kross-húsinu á morgun.
fréttablaðið/stefán
Gunnhildur Sveinsdóttir Gunnhildur býst við góðri mætingu í spurningakeppnina í Rauða kross-húsinu á morgun. fréttablaðið/stefán

Steinþór Steingrímsson og Ölvir Gíslason, höfundar spurningaspilsins Spurt að leikslokum sem kemur út á morgun, halda spurningakeppni í Rauða kross-húsinu í Borgartúni sama dag.

Steinþór og Ölvir bjuggu spilið til eftir að þeir misstu vinnuna. Þeir höfðu áður haldið spurningakeppni fyrir barflugur Grand Rokks en hjá Rauða krossinum verður eingöngu pilsner og snakk í boði.

Að sögn Gunnhildar Sveinsdóttur verkefnastjóra á koma þeirra í Rauða kross-húsið vel við því þangað koma margir sem eru atvinnulausir. Engu síður er húsið opið öllum sem þurfa á stuðningi að halda og einhvers konar afþreyingu. „Við erum með alls konar námskeið og hópa í gangi.



steinþór og ölvir Spurningaspilið Spurt að leikslokum kemur út á morgun.

Síðan getur fólk fengið ráðgjöf frá sjálfboðaliðum um ýmis úrræði sem eru í boði." Nefnir hún sem dæmi ókeypis sálfræði-, fjármála- og lögfræðiráðgjöf.

Auk spurningakeppninnar á morgun ætlar Herbert Guðmundsson að skemmta í hálftíma og leika sín þekktustu lög. Dagskránni lýkur síðan klukkan 16 með hláturjóga í umsjón Ástu Valdimarsdóttur sem hefur verið vel sótt af báðum kynjum að undanförnu.

Ýmsar uppákomur og námskeið hafa verið haldin í Rauða kross-húsinu alla virka daga síðan 5. mars við góðar undirtektir.

„Við reynum alltaf að hafa eitthvað skemmtilegt á föstudögum. Við höfum verið með félagsvist og bingó og það hefur lukkast mjög vel og síðasta föstudag var Sirrý hjá okkur," segir Gunnhildur.

„Í síðustu viku komu hingað um fimmtíu manns á dag. Fólki finnst betra að koma í hús þar sem er eitthvað við að vera og það hefur verið töluverð aukning núna."

freyr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.