Lífið

Bróðir Óla Palla er í Skúrnum

Taka upp grasrótina Gunnar Gunnarsson og Ragnar Gunnarsson eru alltaf í Skúrnum.fréttablaðið/Stefán
Taka upp grasrótina Gunnar Gunnarsson og Ragnar Gunnarsson eru alltaf í Skúrnum.fréttablaðið/Stefán

Litli bróðir Óla Palla á Rás 2 heitir Gunnar Gunnarsson og sér um þáttinn Skúrinn ásamt Ragnari Gunnarssyni. Báðir starfa sem tæknimenn hjá Ríkis­útvarpinu.

„Í Skúrnum er verið að sinna grasrótinni,“ segir Gunnar. „Við fórum upphaflega í æfingahúsnæði á RÚV-bílnum og tókum upp hljómsveitir, en þar sem það reyndist dálítið mikið mál smölum við nú böndunum inn í stúdíó 12 og tökum þau upp þar.“

Þrettán Skúrar hafa farið í loftið til þessa með 2-4 sveitum í hverjum þætti. „Það hafa alls konar hljómsveitir komið fram, bæði þekktar eins og Hoffmann, Weapons og Johnny & The Rest, og óþekktar eins og Ferlegheit og Blinking Number. Það eru 16-17 ára strákar sem líktust helst Þursaflokknum, fannst mér. Elsta bandið var svo Hempujarlar, sextugir karlar í hálfgerðum Megasar-fílingi. Það er allri tónlist gert jafnhátt undir höfði í Skúrnum,“ segir Gunnar.

Gunnar, sem er 25 ára, fimmtán árum yngri en Óli Palli, segir að stóri bróðir hafi ekki haft hönd í bagga með að koma þættinum á koppinn.

„Sigrún Stefáns bað okkur nú bara um að sjá um svona þátt,“ segir hann.

„Auðvitað lít ég upp til stóra bróður, en við erum á allt annarri línu í músíkinni. Á meðan hann hlustar á brit-pop er ég helst fyrir harðari músík, metal og thrash metal.“

Gunnar segir að Skúrinn verði á dagskrá eins lengi og einhver bönd vilja vera í honum, og biður áhugasama endilega að senda línu á skurinn@ruv.is. Skúrinn er á dagskrá öll fimmtudagskvöld á milli 23 og miðnættis á Rás 2.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.