Lífið

Fílahjörðin rumskar í kvöld

Tónlist Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson
Tónlist Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson

Tónleikar með þessu athyglisverða og hljóðláta nafni verða í Leikhúskjallara Þjóðleikhúss til styrktar Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni hljóðmanni, sem einnig er þekktur sem Hawaii-gítarundrið (KRAMDA HJARTAÐ), kvikmyndatónskáld, lagahöfundur, hagyrðingur, kórstjóri og svo ótal margt fleira.

Snillingurinn Steingrímur hefur nú háð stranga baráttu við hvítblæði í um það bil hálft ár og varið tímanum lengst af á Landspítalanum, en að lokinni meðferð hér heima fer hann í mergskipti í Svíþjóð. Varla þarf að taka fram að svona veikindi höggva gríðarlegt skarð í fjárhag hvers og eins sem í því lendir, hvað þá nánustu fjölskyldu.

Því eru aðdáendur, vinir og velunnarar Steingríms hvattir til að mæta á styrktartónleikana og sækja sér styrk í samkomuhaldið og skemmta sér í leiðinni. Fram koma Sýrupolkasveitin Hringir ásamt Möggu Stínu, nýstirnin í Comedy-rokkhljómsveitinni Skelkur í bringu, gleðibankarnir Úlfur Eldjárn & Músíkhvatur. Þá kemur fram hin gamla góða, eina og sanna, Stórsveit JÚPITERS og sjálfur Dóri Dragbítur er rúsínan í pylsuendanum.

Hófsamur aðgangseyrir er í boði en yfirboð vel þegin fyrir hvern miða, hver króna skiptir máli. Forsala miða er í 12 Tónum á Skólavörðustíg 15 .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.