Innlent

Íslendingar til Zimbabwe vegna kólerufaraldurs

Um 600 hafa látist af völdum kólerufaraldursins.
Um 600 hafa látist af völdum kólerufaraldursins.

Hjúkrunarfræðingarnir Hildur Magnúsdóttir og Maríanna Csillaq halda til Zimbabwe í dag og á morgun til að taka þátt í neyðaraðgerðum Rauða krossins vegna kólerufaraldurs í landinu. Þær munu starfa með neyðarteymum norska og finnska Rauða krossins. Fyrir er í Zimbabwe Huld Ingimarsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins sem hefur stjórnað matvæladreifingu í landinu frá því í október.

„Hildur og Maríanna verða 4-5 vikur í Zimbabwe. Kólerufaraldur hefur geisað í landinu síðan í byrjun desember, og hafa um 600 látist en talið er að um 13.000 landsmenn hafi smitast af sjúkdómnum," segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

„Hlutverk þeirra er að ferðast um þéttbýli og sveitir í mið- og austurhluta landsins, greina kólerutilfelli og vinna að forvörnum með þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og sjálfboðaliða Rauða krossins í Zimbabwe. Sjö neyðarteymi Rauða krossins eru nú að störfum í Zimbabwe vegna kólerufaraldursins - þrjú heilbrigðisteymi frá finnska, norska og japanska Rauða krossinum, og fjögur vatnshreinsiteymi frá landsfélögum í Bretlandi, Frakklandi, á Spáni, og svo Þýskalandi og Austurríki."

Þá segir að neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna kólerunnar hljóði upp á 1,2 milljarða íslenskra króna.

„Talið er að allt að helmingur landsmanna, sem eru um 12 milljónir alls, standi frammi fyrir hungursneyð á þessu ári. Helstu stoðir efnahagslífs og framleiðslu í landinu hafa brostið á undanförnum misserum vegna óðaverðbólgu og óstjórnar, og eru neyðarverkefni Rauða krossins líflína hundruð þúsunda manna sem þjást af völdum hungurs og sjúkdóma," segir einnig í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×