Erlent

Þrjú ár í Ólympíuleika í London

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ólympíuleikvangur rís utan við London.
Ólympíuleikvangur rís utan við London. MYND/Getty Images

Lundúnabúar fagna því í dag að nú eru rétt þrjú ár þar til setningarathöfn Ólympíuleikanna árið 2012 hefst.

Kreppa eða ekki kreppa. Bretar eru yfir sig spenntir vegna leikanna sem þeirra höfuðborg mun hýsa næst. Tímamótunum í dag er fagnað með því að leyfa gestum og gangandi að skoða væntanlegan ólympíuleikvang sem rétt er byrjað að byggja. Sebastian Coe, formaður skipulagsnefndar leikanna, segir allt vera nákvæmlega á áætlun, meira að segja standist fjárhagsáætlun vegna leikanna.

Umgjörðin verður hin glæsilegasta, að sögn Coe. Sérstök járnbraut verður lögð frá miðborg London að leikvanginum og verður Javelin-háhraðalest í stöðugum ferðum með áhorfendur. Miðað er við að hún geti flutt 25.000 manns á klukkustund til og frá leikvanginum og verður hraðinn rúmlega 220 kílómetrar á klukkustund. Þá verða ýmsar ráðstafanir gerðar innan samgöngukerfis sjálfrar borgarinnar sem miða að því að keppendur og aðrir gestir geti komist hvert sem vera skal til að skoða það markverðasta í London.

Ellefu háhýsi verða reist við leikvanginn sjálfan og munu keppendur og þjálfarar hafast við þar. Hvaðan kemur svo fjármagnið í þetta allt saman? Að langmestu leyti úr einkageiranum. Fari sem horfir má búast við glæsilegri opnun 27. júlí 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×