Íslenski boltinn

Heimir: Menn rifu sig upp eftir tapið gegn KR

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heimir Guðjónsson. Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson. Mynd/Vilhelm

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var ánægður með karakterinn sem hans lið sýndi í sigrinum gegn Fjölni í dag. Eftir tap gegn KR um síðustu helgi unnu FH-ingar öruggan útisigur í dag 4-1.

„Við byrjuðum ekkert sérstaklega en náðum svo yfirhöndinni og spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik. Við komumst sanngjarnt í 2-0 en svo ætluðu menn að slappa af í byrjun seinni hálfleiks og þeir skoruðu á okkur. Eftir það tókum við völdin og mér fannst þetta sanngjarn sigur," sagði Heimir.

„Það er alltaf erfitt að spila við lið sem eru í fallslag. Þetta eru lið sem gefa sig alla í leikina en ég er ánægður með karakterinn sem FH sýndi. Menn rifu sig upp eftir slæmt tap gegn KR."

„Ég var ánægður með liðsheildina og frammistöðu þeirra leikmanna sem komu til baka. Freyr Bjarnason kom til baka eftir meiðsli og spilaði gríðarlega vel. Viktor stóð sig líka ágætlega," sagði Heimir.

„Það duttu þrír leikmenn út í gær; Óli Palli, Alex og Hjörtur Logi. Þeir sem komu í staðinn stóðu sig vel og sýndu að við höfum mikla breidd." Atli Guðnason lék heldur ekki með FH í dag vegna meiðsla en Heimir vonast til að hann verði klár í næsta leik.

Atli Viðar Björnsson heldur áfram að raða inn mörkum en hann gerði tvö marka Íslandsmeistarana í dag. „Ég var ánægður með að hann næði að skora. Hann var valinn í landsliðið um daginn og er eitthvað búinn að ofmetnast á því. Það er því gott að hann kom til baka og skoraði tvö, sagði Heimir kátur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×