Innlent

Þjófagengi dregið fyrir dóm

Andvirði varningsins sem fólkinu tókst að stela nam tæplega 1,7 milljónum króna.
Andvirði varningsins sem fólkinu tókst að stela nam tæplega 1,7 milljónum króna.
Fimm manns á þrítugsaldri, fjórir karlmenn og ein kona, hafa verið ákærð fyrir að svíkja út eða reyna að svíkja út varning fyrir rúmlega þrettán milljónir úr sex verslunum á árunum 2007 og 2008.

Tveir mannanna og konan sviku út tölvuskjá, myndavél og tölvu, að verðmæti hátt á fjórða hundrað þúsund í verslun í Reykjavík. Mennirnir höfðu samráð um að annar þeirra hringdi í hinn, sem starfaði í versluninni, pantaði búnaðinn og léti skuldfæra hann á tiltekið fyrirtæki. Konan sá svo um að sækja góssið og kvitta fyrir með röngu nafni.

Þrír hinna ákærðu sviku svo eða reyndu að svíkja vörur út úr fjórum verslunum til viðbótar. Um var að ræða hljómflutningstæki, þrjátíu farsíma og fylgihluti, fartölvur, tölvur og kvikmyndatökuvél.

Enn fóru tveir úr hópnum á stúfana og reyndu að svíkja út tölvuleiki og fleira úr verslun fyrir tæpar 200 þúsund krónur. Í ofangreindum tilvikum reyndu mennirnir að falsa millifærslukvittanir eða svíkja vöruna út með ýmsum tilfæringum öðrum.

Tveir úr hópnum voru einnig ákærðir fyrir að hafa fíkniefni undir höndum þegar lögregla handtók þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×