Erlent

Lögreglan flæðir um götur

Tugir þúsunda manna hafa gengið til liðs við lögregluna í Kína á síðustu vikum.fréttablaðið/AP
Tugir þúsunda manna hafa gengið til liðs við lögregluna í Kína á síðustu vikum.fréttablaðið/AP

Tugir þúsunda ungra manna og kvenna hafa bæst í lögregluliðið í Kína. Tilefnið er sextíu ára afmæli kommúnistastjórnarinnar, sem komst til valda í byrjun október árið 1949.

Stjórnvöld þora ekki annað en efla öryggisráðstafanir til muna. Meðal annars sjá nokkur þúsund vopnaðra manna úr úrvalssveitum lögreglunnar um öryggisgæslu á þjóðhátíðardeginum 1. október.

Hert öryggisgæsla verður einnig í Tíbet og Xinjiang, þar sem óánægja ríkir með yfirráð Kínverja. Einnig verður hert öryggisgæsla í fjármálaborginni Sjanghæ.

Öryggissveitir lögreglunnar voru stofnaðar árið 1983. Þær eru vopnaðar og hafa það hlutverk að grípa inn í þegar verkefnin reynast almennum lögregluþjónum ofviða.

Undanfarin tvö ár hafa þessar vopnuðu lögreglusveitir haft nóg að gera bæði í Tíbet og í Xinjiang, þar sem óánægja íbúa hefur brotist út í mótmælum og óeirðum. Í tilefni af afmælinu hefur flokkurinn einnig látið gera bíómynd um upphaf kommúnistastjórnarinnar, þar sem margir þekktustu leikarar Kína eru í áberandi hlutverkum, þar á meðal hasarmyndahetjurnar Jackie Chan og Jet Li.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×