Innlent

Þrír Litháanna áfram í varðhaldi

Þrír Litháanna sem ákærðir hafi verið mansalsmálinu svokallaða hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald. Ekki liggur fyrir hvort tveir aðrir verði áfram í varðhaldi en þeir verða leiddir fyrir dómara síðar í dag. Mikil öryggisgæsla er í héraðsdómi.

Íslendingur er meðal ákærðu í mansalsmálinu en Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur honum og fimm Litháum í morgun. Mennirnir eru allir ákærðir fyrir mansal gagnvart 19 ára stúlku en málið kom upp í október þegar stúlkan, sem er frá Litháen, trylltist um borð í flugvél á leið hingað til lands.

Sagðist hún fórnarlamb mansals en viðamikil rannsókn fór strax í gang sem endaði með því að þrettán manns höfðu um tíma réttarstöðu sakbornings. Þar af voru sex Íslendingar.

Stúlkan hefur frá því í október verið í öruggri umsjá og er enn talin í hættu. Líkt og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í fyrradag segist stúlkan samkvæmt heimildum fréttastofu hafa verið seld ítrekað í vændi í Litháen áður en hún kom til Íslands. Við skýrslutökur hafi hún sagt að sér hafi verið haldið nauðugri í íbúð í fjölbýlishúsi í fjóra mánuði seinni hluta síðasta árs.

Litháarnir fimm tengjast innbyrðis en neita allir sök. Þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því skömmu eftir að málið kom upp. Byrjað var að leiða þá fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í morgun en eftir því sem fréttastofa kemst næst er meiri öryggisgæsla í kringum mennina en almennt gerist þegar menn eru leiddir fyrir dómara.

Tveir lögreglumenn fylgja hverjum Litháa sem eru í handjárnum. Ekki er langt síðan fangi komst í fíkniefni inni á salerni Héraðsdóms Reykjaness, og því eru menn við öllu viðbúnir.

Íslendingurinn sem ákærður er í málinu er eigandi verktakafyrirtækis sem Litháarnir störfuðu hjá.


Tengdar fréttir

Íslendingur og fimm Litháar ákærðir í mansalsmálinu

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur sex karlmönnum, fimm Litháum og einum Íslendingi, fyrir mansal gagnvart 19 ára stúlku. Óskað hefur verið eftir áframhaldandi gæsluvarðahaldi Lithánna sem rennur út í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×