Innlent

Svavar ekki lengur í Icesave viðræðunum

Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku og fyrrverandi ráðherra, fór fyrir samninganefnd íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga varðandi Icesave skuldbindingarnar í sumar.
Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku og fyrrverandi ráðherra, fór fyrir samninganefnd íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga varðandi Icesave skuldbindingarnar í sumar.
Svavar Gestsson, sendiherra og fyrrverandi ráðherra, tekur ekki þátt í viðræðunum sem standa yfir við hollensk og bresk stjórnvöld varðandi Icesave. Viðræðurnar eru á lokastigi en verið er að ganga frá tæknilegum smáatriðum.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu tekur Svavar ekki þátt í viðræðunum en hann fór fyrir nefndinni sem gerði í byrjun sumars samkomulag við Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninga Landsbankans. Auk Indriða Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, taka Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, þátt í viðræðunum. Þá veita sérfræðingar úr ráðuneytunum og utanaðkomandi aðilar þeim ráðgjöf, að sögn upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins.

Þann 23. október rennur út frestur tryggingasjóðs innistæðueigenda til að greiða út tryggingar vegna Icesave reikninganna. Ef ekki verður búið að ljúka Icesave málinu fyrir þann tíma er ljóst að sjóðurinn getur ekki greitt út.

Í greinargerð sem Seðlabankinn og viðskiptaráðuneytið unnu fyrir forsætisráðherra er talið líklegt að greiðsluþrot sjóðsins muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Sjóðurinn og jafnvel ríkið gæti átt von á málsókn fyrir að mismuna innistæðueigendum eftir staðsetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×