Innlent

Telur alvarlega vegið að sjávarútveginum

„Umræðan um þessar upptökuhugmyndir í sjávarútvegi var ofarlega í huga manna á aðalfundinum hjá okkur," segir Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, en aðalfundur fyrirtækisins var haldinn fyrir helgina. Gísli telur að alvarlega sé vegið að sjávarútveginum.

Í umfjöllun á vefsíðu LÍÚ segir Gísli að áhyggjur fundarmanna af árlegri upptöku 5% aflaheimilda hafa komið mjög sterkt fram á fundinum. „Upptaka um 5% þýðir að við myndum missa 160 tonn af bolfiski á ári. Þannig færu 1000 tonn af bolfiski frá okkur á 6 árum," segir Gísli.

Hann segir Loðnuvinnsluna standa frammi fyrir tvöfaldri ógn. Ofan á hugmyndir um upptöku aflaheimilda er krafa um að allur fiskur fari á markað.

„Ef á svo í ofanálag að skylda útgerðina til að selja allan afla í gegnum fiskmarkaði er verið að setja allan rekstur fiskvinnslufyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landsins í algert uppnám," segir Gísli. „Það er alvarlega vegið að íslenskum sjávarútvegi og atvinnuöryggi starfsfólks okkar með þessum hugmyndum."

Að meðaltali störfuðu 158 manns hjá Loðnuvinnslunni á síðasta ári, en á launaskrá komu 272. Þetta er hátt hlutfall miðað við fjölda íbúa, en á Fáskrúðsfirði búa aðeins um 700 manns






Fleiri fréttir

Sjá meira


×