Innlent

Óskað eftir stuðningi Seðlabanka Evrópu

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir líklegt að gengið verði til viðræðna við Seðlabanka Evrópu í haust um stuðning í gjaldeyrismálum. Þær viðræður þurfi ekki að tengjast umsóknar-ferlinu að Evrópusambandinu beint, en geti farið fram samhliða þeim. Gylfi segir vel þess virði að sækjast nokkuð fast eftir stuðningnum.

Alþingi samþykkti í gær að óska eftir að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Óskað verður eftir viðræðum á utanríkisráðherrafundi Evrópusambandsins 27. júlí. Evrópusambandið tekur síðan afstöðu til þess í desember hvort viðræður hefjist, en það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi í febrúar.

Össur Skarphéðinsson utanríkis-ráðherra sagði niðurstöðuna vera sögulega, en hún hefði ekki komið á óvart. „Ég var nokkuð viss um niðurstöðuna þegar ég gekk til atkvæðagreiðslunnar og hún var fráleitt jafn tvísýn og sumir langlífir fjölmiðlar hafa haldið fram af óskhyggju einni saman."

Össur segir niðurstöðuna á þingi munu styrkja íslensku samninganefndina í viðræðum sínum. Atkvæðagreiðslan sýni að málið renni ekki eins og mjöður niður kverkar þjóðarinnar og Evrópusambandið verði að taka nærfærið tillit til þeirrar stöðu sem er á Íslandi.

Ekki er enn ljóst hvernig samninganefndin verður skipuð, en í þingsályktunartillögunni er skýrt kveðið á um ríkt samráð við hagsmunaaðila. Össur segir mikilvægt að sem breiðust fylking sé að baki viðræðunefndinni. „Því öflugra sem baklandið er, því meiri líkur eru á að heildarhagsmunir Íslands nái fram að ganga."

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að í stjórnarmyndunarviðræðum í vor hafi Össur boðið vinstri grænum að leiða Evrópuviðræðurnar. Það mál sé þó enn óafgreitt. Össur staðfesti það ekki.

33 þingmenn samþykktu tillöguna í gær, 28 greiddu atkvæði gegn henni, þar af fimm þingmenn vinstri grænna og tveir sátu hjá; þær Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Allir flokkar klofnuðu í afstöðu sinni fyrir utan Samfylkingu, en allir þingmenn hennar samþykktu tillöguna.- kóp, bþa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×