Erlent

Forsetinn hvattur til að víkja úr embætti

Akbar Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti Írans, gagnrýndi stjórn landsins harðlega í predikun á bænadegi múslima í Teheran í gær. Hann sagði það mistök að hlusta ekki á gagnrýni almennings út af úrslitum forsetakosninga nýverið.

Tugir þúsunda stjórnarandstæðinga komu saman í tilefni af bænahaldinu og mótmæltu stjórninni af miklum krafti. Mahmoud Ahmadinejad forseti var hvattur til að segja af sér.

Lögregla beitti táragasi á hluta mótmælendahópsins. Tugir manna voru handteknir.

Rafsanjani sagði öllum ljóst að vafi léki á úrslitum kosninganna: „Stór hópur af skynsömu fólki segist hafa efasemdir. Við verðum að grípa til aðgerða til að útrýma þessum efa."

Ræðan var ótvíræð ábending til Ali Khameini, æðsta leiðtoga landsins, sem hefur lýst því yfir að sigur Ahmadinejads í kosningunum sé hafinn yfir allan vafa.

Rafsanjani segir að deilurnar hafi valdið klofningi í klerkastéttinni, sem stjórnar landinu, og sagði hættu á stjórnarkreppu.

Mir Hossein Mousavi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem um tíma var talinn hafa sigrað í kosningunum, sat í fremstu röð í föstudagsbænahaldinu. Þetta er í fyrsta sinn síðan ólgan hófst sem hann tekur þátt í bænahaldinu.

Rafsanjani hefur reglulega flutt predikanir á bænadegi múslima, en hefur ekki látið sjá sig í nokkrar vikur. Hann þótti hófsamur forseti sem vildi bæta samskiptin við Vesturlönd. Hann er harður andstæðingur Ahmadinejads og talinn hliðhollur Mousaveni. Dóttir hans og fjórir aðrir ættingjar hans voru handtekin eftir að hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við Mousaveni, en þau voru fljótlega látin laus á ný.

Kosningar voru haldnar í júní og þótti Mousaveni nokkuð líklegur til að vinna sigur fyrir kosningarnar. Stuðningsmenn hans hafa ekki sætt sig við að opinber úrslit kosninganna, sem voru Ahmadinejad í vil, og segja brögð í tafli.

Fyrstu dagana eftir kosningarnar streymdu stuðningsmenn Mousaveni út á götur höfuðborgarinnar, en þau mótmæli voru barin niður af lögreglu og her. Hundruð manna voru handtekin og að minnsta kosti tuttugu létu lífið.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×