Innlent

Allt að 8,5 prósenta hækkun

Mikið var að gera í vínbúðum í gær, en þær eru opnar til hádegis í dag. Fréttablaðið/stefán
Mikið var að gera í vínbúðum í gær, en þær eru opnar til hádegis í dag. Fréttablaðið/stefán
Verð á algengum áfengistegundum mun hækka um allt að 8,5 prósent eftir áramót, og verð á sígarettum um 7,5 prósent. Hækkunin kemur til vegna hækkunar á áfengis- og tóbaksgjaldi, auk eins prósentustigs hækkunar á virðisaukaskatti.

Samkvæmt útreikningum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins mun algeng tegund af rauðvíni með 13,5 áfengisprósentu hækka úr 1.898 krónum í 1.999 krónur, eða um 5,3 prósent. Þriggja lítra kassi af 13,5 prósenta rauðvíni hækkar um 7,8 prósent og mun kosta 5.279 krónur.

Algeng bjórtegund í hálfs lítra umbúðum mun eftir hækkunina kosta 313 krónur, 6,1 prósenti meira en í dag. Mest hækkar þó sterkt áfengi og mun 700 millilítra flaska af 37,5 prósenta vodka hækka um 8,5 prósent og kosta 4.767 krónur.

Heildsöluverð á sígarettum frá ÁTVR hækkar um 7,53 prósent og verður um 7.000 krónur eftir hækkun. Algengt útsöluverð á sígarettupakka er rúmar 800 krónur, og verður trúlega í kringum 900 krónur þegar verslanir hækka verðið eftir áramót.

Í þessum útreikningum er ekki reiknað með mögulegum verðhækkunum frá birgjum um eða eftir áramót. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×