Erlent

Snéri aftur heim til Hondúras í morgun

Manuel Zelaya
Manuel Zelaya
Manuel Zelaya, forseti Hondúras, snéri aftur til heimalands síns í morgun aðeins mánuði eftir að hann var hrakinn frá völdum. Um táknrænan atburð var að ræða og sneri Zelaya aftur yfir landamærin til Níkaragúa stuttu síðar.

Fjölmargir stuðningsmenn Zelaya tóku á móti hinum útlæga forseta þegar hann gekk yfir landamærin Nikaragúa og Hondúras í morgun. Heimsókn Zelaya stóð aðeins í 30 mínútur en herstjórnin í Hondúras hafði áður hótað að handtaka Zelaya ef hann sneri aftur.

Til átaka kom á milli stuðningsmanna Zelaya og lögreglu við landamærin en ekki er vitað til þess að nokkur hafi slasast alvarlega.

Zelaya var hrakinn frá völdum í síðasta mánuði eftir að hann reyndi að breyta stjórnarskrá landsins til að tryggja áframhaldandi setu í valdastól.

Zelaya hefur heitið því að snúa aftur til Hondúras en heimsókn hans í morgun hefur þegar verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af bandarískum stjórnvöldum - sem hingað til hafa stutt Zelaya.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×