Innlent

Ásta Ragnheiður keppir við strákana

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, gefur kost á sér í 4.sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar. Því er ljóst að hart verður barist um fjórða sætið en sá sem það hreppir mun skipa annað sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Líkt og Vísir hefur greint frá sækjast þeir Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Skúli Helgason einnig eftir umræddu fjórða sæti.

Í tilkynningu frá Ástu Ragnheiði segir að aldrei hafi verið mikilvægara að standa vörð um þá sem standa höllum fæti en nú. Einnig sé mikilvægt að berjast gegn félagslegum afleiðingum efnahagsþrenginganna á heimilin, fjölskyldurnar og ekki síst börnin.

„Ég tel mikilvægt að við endurreisn íslensks efnahagslífs verði einnig hugað að hag fatlaðra og aldraðra. Þá er brýnt að tryggja jafnrétti kynjanna í starfinu framundan og mikilvægt að grípa til frekari aðgerða til að draga úr auknu atvinnuleysi.

Velferðarmál hafa ávallt verið mín hjartans mál og þau endurspeglast í störfum mínum á Alþingi. Þar hef ég setið í 14 ár og unnið markvisst að bættri velferðarþjónustu með flutningi þingmála, veitt stjórnvöldum aðhald og m.a. setið í heilbrigðis-, félagsmála- og trygginganefnd þingsins. Áður starfaði ég hjá Tryggingastofnun ríkisins og þekki því málaflokkinn mjög vel.

Krafa um endurnýjun í íslenskum stjórnmálum er skiljanleg en ekki er síður mikilvægt að reynsla og þekking sé til staðar þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Ég er reiðubúin að halda áfram þeim mikilvægu störfum sem ég hef sinnt undanfarið og tilkynni þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum sem fram fer 9.-14. mars nk. Ég sækist eftir 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í öðru hvoru kjördæmanna í komandi alþingiskosningum og stefni því á 4. sætið í prófkjörinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×