Erlent

Ný gögn um helförina í skrifum aðstoðarmanns Hitlers

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Darges og foringinn.
Darges og foringinn.

Náinn aðstoðarmaður Adolfs Hitler, sem lést um helgina, gæti varpað nýju ljósi á kenningar endurskoðunarsinna um helför gyðinga.

Endurminningar Fritz Darges, sem var 96 ára gamall þegar hann lést um helgina og var síðasti núlifandi aðstoðarmaður Hitlers, gætu þaggað endanlega niður raddir svokallaðra endurskoðunarsinna sem halda því fram að Hitler hafi aldrei vitað neitt um útrýmingarherferðina gegn gyðingum, heldur hafi SS-foringinn Heinrich Himmler alfarið haft veg og vanda af þeim.

Darges var aðstoðarmaður í innsta hring hjá Hitler og var viðstaddur alla stóratburði með honum í fjögur ár. Hann ritaði ítarlegar endurminningar um tíma sinn með Hitler og fyrirskipaði að handritið skyldi gefið út að honum látnum. Í endurminningunum kemur skýrt fram að helförin hafi verið fyrirskipuð af Hitler og að langmestu leyti útfærð af honum.

Darges fer ekki dult með aðdáun sína á foringjanum og lofar hann í hástert þrátt fyrir að samstarfi þeirra hafi lokið með sviplegum hætti í Rastenburg í júlí 1944, tveimur dögum áður en Claus von Stauffenberg og vitorðsmönnum hans tókst næstum því að ráða Hitler af dögum með sprengjutilræði.

Þá undirbjó Hitler ræðu við skrifborð sitt er húsfluga tók að sveima í kringum hann honum til skapraunar. Hann skipaði Darges að losna við þessa óværu en aðstoðarmaðurinn benti á að þar sem plágan væri fljúgandi heyrði það undir Nicolaus von Below, yfirmann flughersins Luftwaffe, að fjarlægja fluguna. Hitler tapaði sér þá af bræði og sendi Darges til austurvígstöðvanna og skildi þar með þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×