Lífið

Heiðruðu Jackson á Hróarskeldu

Hljómsveitin Hjaltalín heiðraði hinn sáluga Michael Jackson á Hróarskelduhátíðinni.
fréttablaðið/daníel
Hljómsveitin Hjaltalín heiðraði hinn sáluga Michael Jackson á Hróarskelduhátíðinni. fréttablaðið/daníel

Hljómsveitin Hjaltalín heiðraði Michael Jackson á tónleikum sínum á Hróarskelduhátíðinni á fimmtudagskvöld með því að spila lag hans Don't Stop 'til You Get Enough. Lagið var það síðasta sem hún tók fyrir uppklapp.

„Við tókum það líka á Nasa á laugar­dagskvöldið [27. júní]. Það hitti mjög vel í mark og það var mikið dansað," segir Guðmundur Óskar Guðmundsson, bassaleikari Hjaltalín, sem skemmti sér vel á Hróarskeldu. „Þetta gekk rosalega vel. Við spiluðum fyrir stappað tjald af fólki, svona þúsund manns, og það var vel tekið í allt." Aðeins um tvö hundruð Íslendingar eru á Hróarskeldu í ár sökum lágs gengis krónunnar og var hluti þeirra mættur til að sjá Hjaltalín. „Maður sá að þegar við spiluðum Þú komst við hjartað í mér fóru allir Íslendingarnir á hreyfingu. Þá sá maður hverjir voru útlendingar og hverjir voru Íslendingar," segir Guðmundur.

Fregnir af meiri þjófnaði á hátíðinni en áður hafa tröllriðið dönskum fjölmiðlum en Guðmundur segist ekkert hafa orðið var við slíkt. „Við vorum með allt okkar dót í mjög vel girtri aðstöðu baksviðs. Það var enginn séns að komast þangað nema að vera með þar til gerða passa og pappíra."

Kira Kira spilaði á Hróarskeldu á þriðjudagskvöldið við góðar undirtektir og gafst liðsmönnum Hjaltalín tími til að hitta hana áður en þeir héldu á brott til Póllands þar sem þeir spiluðu í gærkvöldi. Aftur á móti gafst enginn tími til að blanda geði við stjörnur hátíðarinnar á borð við Oasis, Coldplay og Nick Cave. „Það gafst ekki mikið tækifæri til þess. Við þurftum að ná flugvél snemma um morguninn og við rétt náðum að labba um hátíðarsvæðið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.