Lífið

Tæmir vasa vina sinna

Slyngur Edward Norton græddi mikið á því að leika í pókermyndinni Rounders og hefur haft það fyrir sið að tæma vasa Woody Harrelson í spilum.
Slyngur Edward Norton græddi mikið á því að leika í pókermyndinni Rounders og hefur haft það fyrir sið að tæma vasa Woody Harrelson í spilum.

Edward Norton þarf engu að kvíða ef leikaraferillinn fer einhvern tímann í vaskinn. Hann þykir svo lunkinn pókerspilari að bestu vinir hans hafa tapað háum fjárhæðum á því að spila við hann. New York Daily News greinir frá þessu í gær.

Norton lék eitt aðalhlutverkanna í pókermyndinni Rounders og lærði þar öll helstu brögðin í fjárhættuspilamennsku af fremstu pókerspilurum heims en Norton þótti standa sig vel sem Lester „Worm“ Murphy.

Og Norton hefur átt erfitt með að kveðja þennan ágæta karekter sinn og svo góður þykir hann vera orðinn að vinir hans úr leikarastéttinni veigra sér við að skora á hann. Nema Woody Harrelson. Sem hefur tapað umtalsverðum fjárhæðum á því að láta sér ekki segjast.

„Harrelson er fórnarlambið mitt, ég elska að hirða af honum eins mikið af peningum og ég get,“ sagði Norton í samtali við blaðið. Leikarinn verður meðal spilara á góðgerðarmóti sem fram fer í Cannes um helgina og hyggst láta sverfa til stáls og sýna mátt sinn og megin í eitt skipti fyrir öll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.