Innlent

Gríðarlegur verðmunur á milli verslana

Mynd/GVA
Gríðarlegur verðmunur reyndist á milli verslana þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 54 vörutegundum í 8 verslunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri 9. júní. Fjarðarkaup var í flestum tilfellum ódýrari en aðrar þjónustuverslanir.

Bónus var oftast með lægsta verðið á þeim vörum sem kannaðar voru eða í 27 skipti af 54. Krónan var 14 sinnum með lægsta verðið. Kaskó og Fjarðarkaup 8 sinnum og Nettó 6 sinnum. Samkaup-Úrval var 22 sinnum með hæsta vöruverðið, Nóatún 16 sinnum og Hagkaup 9 sinnum.

Verð var skoðað í fjórum lágvöruverðsverslunum og fjórum þjónustuverslunum og verðlagseftirlitið segir að það veki athygli að Fjarðarkaup hafi í flestum tilfellum verið ódýrari en aðrar þjónustuverslanir. Meiri verðmunur var á milli hæsta og lægsta verðs í þjónustuverslununum en í lágvöruverðsverslununum og er helsta skýringin sú að Fjarðarkaup sker sig úr í verðlagningu.

„Það er nauðsynlegt fyrir almenning að fylgjast vel með verðlagi á þessum umbrotatímum. Eins og fram kemur í verðkönnuninni er mikill verðmunur á milli verslana á brauðmeti og kexi, kjötvörum, dósamat og þurrvöru, ávöxtum og grænmeti. Því þurfa neytendur að hafa vakandi auga á matvöruverði sem er síbreytilegt," segir í tilkynningu frá ASÍ.

Þar segir jafnframt að oft sé erfitt að átta sig á verðmismun vegna þess að sömu vörur eru seldar í mismunandi stærðum og stærri pakkningar eru ekki endilega ódýrari. Oft sé erfitt fyrir neytendur að átta sig á raunverulegu mælieiningaverði, þar sem mikið sé af formerktum vörum sem seldar séu með álímdum afsláttarmiða sem tilgreinir ekki endanlegt vöruverð.

„Því er ekki endilega hagkvæmara að kaupa vöru með afslætti, varan gæti verið ódýrari í öðrum pakkningum með engum afslætti. Það getur borgað sig að eyða tíma í verðsamanburð í versluninni áður en ákvörðun er tekin um kaup á vörunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×