Innlent

Laun stjórnenda ríkisstofnana lækkuð um 40%

Höskuldur Kári Schram skrifar
Laun æðstu stjórnenda stofnana og félaga í eigu ríkisins verða lækkuð um allt 40 prósent samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra kynnti í dag. Forsætisráðherra segir um nauðsynlega aðgerð að ræða þar sem laun í ríkiskerfinu séu í mörgum tilvikum alltof há.

Frumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir því að laun æðstu stjórnenda félaga og stofnana í eigu ríkissins verði framvegi ákvörðuð af kjararáði.

Laun stjórnenda mega ekki vera hærri en laun forsætisráðherra eða 935 þúsund krónur á mánuði.

Fjármálaráðherra segir að þetta skili ekki miklu í ríkiskassann en sé liður í því að jafna launabil hjá hinu opinbera

„Þetta eru ekki óskaplega stórar fjárhæðir því hér er ekkert mjög fjölmennur hópur. En við skulum átta okkur á því að þetta eru yfirmenn í mjög stórum stofnunum og launastrúkturinn þar tekur náttúrulega mið af því hvað yfirmaðurinn hefur í laun," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Breytingin nær meðal annars til bankastjóra ríkisbankanna og stjórnenda ríkisútvarpsins og Landsvirkjunar. Laun þeirra lækka samkvæmt þessu úr rúmlega einni og hálfri milljón á mánuði niður í 900 þúsund krónur eða um 30 til 40 prósent.

„Þetta er bara nauðsynleg forsenda. við erum að fara inn í mjög erfiðar aðgerðir fyrir öll heimili í landinu. við erum að fara inn í það að taka hér á rekstri hjá hinu opinbera okkur þykir þetta vera grundvallar atriði að byrja á þessu áður en við förum að sýna aðrar aðgerðir sem eru mjög erfiðar fyrir heimilin í landinu," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×