Innlent

Sjálfstæðismenn yfirgáfu þingsal og fengu þá orðið

Upphlaup varð á Alþingi fyrir stundu þar sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, leyfði ekki sjálfstæðismönnum sem báðu um orðið, að ræða fundarstjórn forsetans undir liðnum Dagskrá þingsins.

„Fyrir þessu eru engin fordæmi," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um viðbrögð Ástu Ragnheiðar við beiðni þingmanna um að fá orðið.

Bjarni óskaði eftir því að dagskrá þingsins yrði breytt áður. Ásta Ragnheiður sagðist ætla að fjalla um málið á fundi með þingflokksformönnum að lokinni utandagskrárumræðu um aukningu aflaheimilda.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru þá inn í hliðarherbergi þar sem þeir ræddu saman og yfirgáfu þar með þingsalinn. Stuttu síðar sá Ásta Ragnheiður að sér og leyfði þingmönnum að fá orðið.

Sjálfur hélt Bjarni ræðu en hann vill að umræða um fyrirhugaðar skatthækkanir ríkisstjórnarinnar verði rædd inn á þingi, helst í dag, eða á næstu dögum en ekki í fjölmiðlum eins og gerst hefur undanfarna daga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×