Innlent

50 teknir í kannabismálum

Fíkniefnalögreglan tók um miðjan dag í gær enn eina ræktunina, nú í Hafnarfirði.
Fíkniefnalögreglan tók um miðjan dag í gær enn eina ræktunina, nú í Hafnarfirði.

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu handtók 27 manns í síðasta mánuði vegna kannabisræktana. Á landsvísu hafa um fimmtíu manns verið handteknir í tengslum við kannabisræktanir sem stöðvaðar hafa verið frá áramótum.

Fíkniefnadeildin á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið 25 ræktanir frá áramótum sem í voru nær 6.000 plöntur. Í janúar og febrúar voru teknar tíu kannabisræktanir í umdæminu en fimmtán í síðasta mánuði.

Í fyrrinótt stöðvaði lögreglan umfangsmikla kannabisræktun í húsi í Hafnarfirði. Við húsleit fundust um 220 kannabisplöntur. Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn.

Um miðjan dag í gær tók fíkniefnalögreglan svo ræktun á Norðurbakkanum í Hafnarfirði, þar sem á áttunda tug plantna voru á lokastigi ræktunar. Einn var handtekinn.

Þyngd þeirra plantna sem hafa verið teknar á höfuðborgarsvæðinu einu er samtals um 530 kíló. Ef gert er ráð fyrir að um fimmtán prósent af þyngd hverrar plöntu fari í sölu á götunni, sem er varlega áætlað, gerir það um áttatíu kíló af seljanlegum kannabisefnum. Götuverðmæti þeirra er um 270 milljónir. Séu teknar allar þær plöntur sem fíkniefnadeild hefur lagt hald á frá áramótum, gert ráð fyrir að þær hefðu náð fullum þroska og miðað við fimmtíu grömm af nýtanlegu efni í hverri plöntu má gera ráð fyrir fíkniefnasölu á götunni upp á 920 milljónir króna.

Ef reiknaður er saman sá fjöldi þær plantna sem öll lögregluembætti á landinu hafa lagt hald á frá áramótum er hann nærri 7.000 talsins.

Þá hefur fíkniefnalögreglan gert upptæk um 6,6 kíló af maríjúana á árinu. Andvirði þess er um 22,4 milljónir. Umrætt efni var framleitt hér á landi. Flest málanna 25 sem komið hafa upp á höfuðborgarsvæðinu frá áramótum eru upplýst, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Nokkur mál eru þó til rannsóknar.jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×