Erlent

Kona handtekin vegna Bernanke-málsins

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bernanke-hjónin.
Bernanke-hjónin. MYND/Reuters

Búið er að handtaka manneskju sem stal veski eiginkonu bandaríska seðlabankastjórans.

Fréttastofan greindi frá því á dögunum að hópur svokallaðra auðkennaþjófa hefði komist yfir persónuskilríki Önnu Bernanke, eiginkonu Bens Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og notað þau til að taka 900 dollara út af reikningi á hennar nafni. Skilríkin voru í veski sem stolið var á meðan Anna sat á kaffihúsi í Washington.

Á mánudagskvöld handtók lögregla í Miami unga konu sem grunuð er um verknaðinn. Konan er heróínfíkill og var gripin á hótelherbergi með heróín og fjöldann allan af hárkollum sem hún notaði til að taka á sig hin ýmsu gervi. Hin handtekna tilheyrir glæpahring sem sérhæfir sig í auðkennastuldi og hefur svikið milljónir dollara út af reikningum mörg hundruð fórnarlamba um gervöll Bandaríkin með því að komast yfir persónuupplýsingar þeirra og hagnýta sér þær.

Þetta er níunda manneskjan úr þessum tiltekna glæpahring sem lögreglan gómar og er sérgrein hennar að dulbúa sig sem fórnarlömb þjófanna og fara svo með skilríki þeirra í bankann til að freista þess að ná peningum af reikningum þeirra. Lögregla segist hafa að minnsta kosti sex manns til viðbótar í sigtinu úr þessu sama þjófagengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×