Lífið

Prinsessan nýr sumarsmellur

Nýr smellur í fæðingu. Buffið við upptökur á nýja laginu Prinsessunni í hljóðveri sínu í Hafnarfirði.fréttablaðið/pjetur
Nýr smellur í fæðingu. Buffið við upptökur á nýja laginu Prinsessunni í hljóðveri sínu í Hafnarfirði.fréttablaðið/pjetur

Hljómsveitin Buff er þessa dagana að taka upp nýjan sumarsmell sem nefnist Prinsessan. Höfundur lags og texta er Dr. Gunni.

„Gunni lét okkur fá lagið og bar undir okkur fyrir löngu síðan. Við vorum hrifnir af því strax,“ segir Hannes Friðbjarnarson. trommari í Buff um nýtt sumarlag sveitarinnar.

Til stóð að hafa lagið á síðustu plötu Buffsins sem kom út fyrir jól en af því að svo mörg lög voru farin í spilun af henni ákváðu þeir að bíða aðeins með það. Lagið kemur líklega út um páskana. „Þetta er mjög hressandi slagari. Það er kannski ekki við öðru að búast af Gunna, hann semur ekki mikið af ballöðum. Okkur fannst virðingarvert að hann skyldi vilja að við tækjum lag fyrir sig,“ segir Hannes.

Fram undan hjá Buffinu er spilamennska í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki um páskahelgina en um síðustu helgi spilaði sveitin á árshátíð Íslandsbanka í Vodafone-höllinni. Skemmst er að minnast þess er sveitin spilaði á árshátíð Seðlabankans þegar bankinn var hvað mest í umræðunni. „Það voru næstum því þúsund manns. Þetta var eins og hver önnur árshátíð, bara allir í stuði,“ segir Hannes.

Auk Prinsessunnar eru fleiri lög væntanleg með Buffinu síðar á árinu. Ný plata er þó ekki væntanleg fyrr en á næsta ári.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.