Erlent

Ólíklegt að halastjörnur ógni jarðarbúum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Nánast útilokað er að halastjörnur rekist á jörðina, ef marka má nýja rannsókn.

Þeir sem orðið hafa felmtri slegnir yfir kvikmyndum á borð við Deep Impact, sem fjallar um árekstur halastjörnu við jörðina, geta nú andað léttar eftir að hópur stjarnvísindamanna við háskólann í Washington gerði þá uppgötvun að þyngdarafl Satúrnusar og Júpíters myndi að öllum líkindum nægja til að beina aðvífandi halastjörnum frá jörðinni.

Nathan Kaib, sem stjórnaði rannsóknum hópsins, segir að það sé reyndar ekki alveg útilokað að árekstur verði en þá sé það huggun harmi gegn að síðasta halastjarna sem lenti á jörðinni og sú stærsta sem vitað er að hafi lent hér, og þetta var fyrir 40 milljónum ára, hafi alls ekki þurrkað út allt líf á plánetunni. Gott mál sem sagt.

Þeir fræðingar segja þó Satúrnus og Júpíter ekki endilega hafa sömu áhrif á smástirni sem stefni á jörðina en langflest þeirra brenna þó upp og verða að engu við að fara inn í lofthjúpinn. Halastjörnuárekstrar eru líka frekar fátíðir, bæta þeir við. Aðeins er vitað með vissu um að þrjár hafi skollið á jörðinni síðustu 500 milljónir ára. Sem sagt, slíkt gerist sennilega ekki núna um helgina að minnsta kosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×